Margir nálgast gítarinn eins og verkefni. Eitthvað verkefni sem þarf að „klára“. Æfa rétt, gera nóg og ná ákveðnu stigi. Ef sú pressa er til staðar þá er hætt við þvi að einhversstaðar á leiðinni glatar gítarinn því sem gerði hann svo spennandi til að byrja með.
Gítarinn var nefnilega aldrei hugsaður sem verkefni. Hann var hugsaður sem félagi.
Þegar gítarinn verður byrði
Ég hef séð þetta oft. Fólk byrjar af miklum áhuga en svo fer pressan að læðast aftan að því.
„Ég ætti að æfa meira.“ „Ég er ekki kominn nógu langt.“ „Ég kann þetta ekki almennilega.“
Skyndilega er gítarinn orðinn áminning. Ekki um gleði – heldur áminning um það sem vantar. Og þá gerist eitthvað skrítið: Maður fer að forðast hann.
Ekki af leti, heldur af því að enginn vill setjast niður með hlut sem lætur manni líða eins og maður sé að standa sig illa.
Gítarinn á að vera með þér – ekki yfir þér
Gítarinn þarf ekki að vera dómari og hann þarf ekki að mæla árangur. Hann getur verið:
- Þar þegar þú vilt slaka á.
- Þar þegar þú vilt gleyma stund og stað.
- Þar þegar þú vilt bara heyra nokkra tóna.
Einn dag spilar þú í fimm mínútur. Annan dag í hálftíma. Stundum bara einn hljóm.
Allt telur.
Fullorðnir læra öðruvísi – og það er kostur
Sem fullorðin manneskja ertu ekki endilega að reyna að verða „gítarleikari“. Þú ert að reyna að hafa gítarinn í lífinu þínu.
Þú veist hvað þú fílar. Þú veist hvaða lög snerta þig. Og þú þarft ekki samþykki frá neinum. Það felst mikið frelsi í því.
Þegar gítarinn fær að vera félagi en ekki verkefni, þá koma framfarirnar oft sjálfkrafa. Ekki vegna aga, heldur vegna þess að þú leitar aftur til hans.
Samband sem má vera afslappað
Sum sambönd eru ekki flókin. Þau þurfa ekki reglur, mælikvarða eða markmið. Gítarinn má alveg vera þannig!
Hann má bíða. Hann má vera tekinn upp hvenær sem er sólarhringsins og án áætlunar. Gítarinn er ekki strætó sem gengur frá Hlemmi 15 mínútur yfir heila tímann… Gítarinn er til staðar fyrir þig og má vera aðeins fyrir þig. Og ef þú spilar ekkert í viku? Þá er þaðbara allt í lagi.
Hann er ekki að fara neitt.
Kannski er þetta lykillinn
Ef þú hefur átt gítar lengi en spilar lítið, þá er vandamálið líklega ekki skortur á aga eða hæfileikum. Kannski var gítarinn bara orðinn verkefni sem þér fannst þér þurfa að tækla og náðir aldrei að „klára“. Stóri lykilinn er etv sá að hljóðfæri er eitthvað sem maður nær aldrei að „klára“ eða komast á „endastöð“ – þetta er endalaust ferðalag og um að gera að finna sem mesta gleðina í því sem maður er að gera á hljóðfærinu hverju sinni og njóta ferðalagsins stund frá stundu.
Þú þarft einfaldlega að leyfa honum að verða félagi aftur. Engin pressa. Engin skylduæfing. Bara spila tóna, þegar þeir henta – og njóta og hafa gaman!
Og það er meira en nóg. Njóttu vel og mundu að hafa gaman!