fbpx
gitar-plastur_7703

Aumir gítarfingur ? Prófaðu þetta…

Það er algengt að puttarnir séu aumir hjá þeim sem byrja að spila á gítar, það tekur tíma fyrir fingurgóma að mynda sigg. En það er margt hægt að gera til að þetta ferli sé þægilegra.

 

Spilaðu lausar

Við gítarleikarar, sérstaklega byrjendur, eigum til að ýta of fast á strengina. Málið er einfaldlega þannig að við þurfum bara að ýta nægilega fast til að tónninn myndist, allt annað er eyðsla á orku og setur meiri spennu á fingur, liðamót, vöðva ofl. Prófaðu að spila lausa og lausar þangað til að tónninn fer, ýttu þá örlítið fastar þannig að tónninn heyrist skýrt. Það ætti að vera best.
Auk þess ef við þrýstum fast á strenginn þá togast oft of mikið í strenginn út frá böndunum og nóturnar verða falskar þannig að það er til mikils að tækla þetta. Spila lausar!

 

Veldu léttari strengi

Þykkir strengir eru stífari og erfiðara að þrýsta þeim niður í fingraborðið. Þetta skapar auka álag á fingur, liðamót, vöðva ofl. Þetta gæti komið þér af stað og gert þér auðveldar fyrir að byggja upp sigg á fingurgóma. Þó þú notir mjög létta strengi tímabundið þá er ekki endilega þar með sagt að það þurfi að vera svoleiðis lengi, þetta gæti verið ákveðið tímabil.

Gallarnir við að nota mjög létta strengi á kassagítar eru til dæmis:

 • Lægri styrkur sem kemur úr hljóðfærinu, þetta á sér í lagi við um kassagítar.
 • Gítarhálsinn fær annað álag en hann er stilltur fyrir og gæti sveigst í ranga átt.
 • Gítarinn gæti farið að „buzza“ (þegar heyrist bzzzzz með nótu þegar þú spilar) sem skapast af því að við gítarhálsinn hefur sveigst í ranga átt.

 

Hvað tekur sigg langan tíma að myndast ?

Þegar sigg er búið að myndast á fingrunum þínum þá verður miklu þægilegra að spila á gítarinn í lengri tíma. Að meðaltali má segja að það taki 2-4 vikur að sigg myndist að fullu. Hversu fljótt það gerist fer eftir nokkrum atriðum, meðal annars:

 • Hversu oft þú æfir þig / spilar.
 • Hverskonar tónlist þú spilar, mjúkt spil eða „hart“.
 • Hverskonar spilatækni þú notar, s.s. strömm með gítarnögl, fingraplokk.
 • Hvernig hljóma þú ert að spila, s.s. einfalda hljóma eða flóknari hljóma sem krefjast þess að þú notir meira af húðinni en bara fingurgómana.
 • Hvernig strengi ertu að nota, nylonstrengi eða stálstrengi og líka hversu þykka/þunna.
 • Ástandið á húðinni á fingrunum þínum áður en þú byrjaðir að spila á gítar.

 

Hvernig er hægt að flýta fyrir siggmyndun ?

Í nútíma þjóðfélagi viljum við fá allt strax, og það á líka við um gítarspil…. við höfum varla biðlund eftir því að sigg myndist. Hér eru nokkrar leiðir til að flýta því ferli.

 • Æfðu þig í stuttum lotum en af ákefð. Þannig að fingurnir og húðin þínir fái tíma að jafna sig milli „átaka“.
 • Grófir strengir rífa meira í og eru þar með líklegri að flýta fyrir að sigg myndist. Og einnig minni líkur á að hreinlega fá sár af núningi ef um mjög mjóa strengi er að ræða á viðkvæma húð.
 • Stálstrengir eru líklegri að flýta fyrir siggmyndun en nylonstrengir.
 • Ef þú ert ekki með gítarinn nálægt þá má nota skarpa brún á hlutum eins og debet/kreditkorti til að þrýsta inn í fingurgómana til að líkja eftir gítarstrengnum og þannig örva siggmyndun.

 

Húðgerð okkar er mismunandi

Við erum öll einstök og húðgerð okkar er mismunandi, sumir eru með feitari húð en aðrir og það tekur suma lengri tíma að fá sigg. Siggið sjálft er líka mismunandi eftir fólki, hjá sumum er það mjög gróft en hjá öðrum er það sléttara – annað er ekki endilega betra en hitt! Það sem skiptir mestu máli að við njótum þess að spila á hljóðfærið án þess að finna til sársauka. Ég vona að einhverjir af þessum punktum hjálpi þér á þínu ferðalagi um gítarheiminn :)

Deila færslu

Share on facebook
Share on twitter