fbpx
acoustic-guitar-close_1280

Hvernig er gott fyrir byrjenda að æfa sig ? (1. hluti)

1. hluti

Við fáum oft þessa spurningu frá nemendum, hvernig sé best að æfa sig.  Það er erfitt að alhæfa í þessu en í þessari stuttu grein fer ég yfir hvað hefur virkað vel fyrir mig persónulega og mína nemendur.  Hér koma nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga, þetta er fyrsti hluti af nokkrum greinum um þetta málefni :)

 

ÞETTA Á AÐ VERA GAMAN

Ef við höfum gaman af því sem við gerum er töluvert meiri líkur á að við náum árangri, gleðin færir okkur langar leiðir.  Síðast en ekki síst þá höfum við ánægju af því sem við erum að gera!

 

EKKI LÁTA MÓTLÆTI DRAGA ÚR ÞÉR

Árangur er ekki línulegur, við náum árangri etv hratt, svo gerist ekkert í ákveðinn tíma og svo allt í einu gerist eitthvað og við förum á flug.  Höldum áfram þó við þykjumst ekki sjá árangurinn, það er allt að gerast þó við komum ekki auga á það.  Sjáum til dæmis fræ sem við setjum í jörðu, það gerist ekkert í ákveðinn tíma, en allt í einu koma laufblöð upp úr jarðveginum.  Það er akkúrat það sem við erum að gera, við erum að sá til framtíðar með því að æfa okkur.

“ÞETTA ER VONT!”

Vissulega koma tímar í byrjun þar sem við finnum fyrir óþægindum í fingurgómum vegna þess að það vantar sigg á fingurna.  Það tekur tíma að koma, ekki missa kúlið! :)  Það er hinsvegar mikilvægt að athuga að við séum með rétta handstöðu og séum ekki að fá verki í úlnliðinn og á fleiri staði vegna þessa.  Við förum vel yfir þessi mál á okkar námskeiðum enda MJÖG mikilvægt atriði.  Persónulega lenti ég í vandræðum í mörg ár vegna þrálátrar sinaskeiðabólgu sökum lélegrar handstöðu.  Ég vil ekki að þetta komi fyrir neina af mínum nemendum og legg því ofuráherslu á þetta.

 

ÞARF ÉG AÐ ÆFA MIG Á HVERJUM DEGI ?

Tja…  ef þú orðar þetta svona þá er þetta etv ekki nægilega skemmtilegt eins og þú ert að gera þetta.  Ímyndaðu þér ungan knattspyrnuiðkanda fullur áhuga og ánægju…  það er hæpið að hann spyrji hvort hann “þuuuuuurfi” að fara út að sparka í bolta.  Hann hreinlega elskar það!  Því bendi ég þér á að reyna að finna leið til að vekja hjá þér ánægju með gítarleiknum, þá fyllist þú frekar eldmóð og þá verður þetta tóm gleði og hamingja, ekki kvöð!  Þá verður ekki vandamál að snerta hljóðfærið á hverjum degi, það skiptir miklu máli til að ná betri tökum á hljóðfærinu eða verja tíma með það í höndunum og auka „tengslin“.

 

NOTAÐU NÝJA / NÝLEGA STRENGI

Oft eru byrjendur með gítara að láni sem hafa etv staðið lengi ónotaðir hjá ættingja eða vini.   Strengina þarf að endurnýja nokkuð reglulega, hversu oft fer eftir viðkomandi gítarleikara og hvernig spilamennskan er.  Sumir svitna mikið á höndunum og þá þarf að skipta oftar um strengi.  Ágætt að miða við að skipta um strengi amk 1x á ári.  Að spila á mjög gamla strengi er bæði vont og hljóðið er lélegt úr strengnum.  Bæði þetta stafar af tæringu málmsins í strengjunum sökum aldurs og aðstæðna.

 

Deila færslu

Share on facebook
Share on twitter